Tölvurisinn HP hefur kynnt til sögunnar prentara sem geta varist árásum frá skammtatölvum (e. quantum computers). Skammtatölvur eru í stuttu máli vélar sem geta framkvæmt stafræna skammtareikninga. Þessir reikningar eru gerðir í skammtatölvum á hliðstæðan hátt og reikningar í venjulegum tölvum, það er með forritum sem í grunninn geta gert reikniaðgerðir á bitum tölvunnar, að því fram kemur á Vísindavefnum.
HP segir að ógnin sem stafi af árásum skammtatölva sé að slíkar vélarnar geti rofið ósamhverfa dulkóðun (reiknirit sem stafræni heimurinn byggir á) og að þessi ógn vaxi ár frá ári. Talið er að 34% líkur séu á að slíkt gerist fyrir árið 2034. Þessi óheilla þróun mundi stofna dulkóðuðum samskiptum í hættu, ógna stafrænum undirskriftum, sem notaðar eru til að sannreyna heilindi vélbúnaðar og hugbúnaðar, og draga úr stafrænu trausti, að sögn HP. Prentari sem getur ekki varist árás skammtatölvu í gegnum vélbúnaðarstigið getur orðið berskjaldaður gagnvart skaðlegum uppfærslum. Slík árás getur náð algjöru valdi fyrir viðkomandi tæki. HP hefur áður kynnt fyrstu fartölvurnar með vörn gegn skammtatölvum.
Bandarísk stjórnvöld hafa lýst því yfir að frá árinu 2027 muni þau einungis kaupa búnað sem tengist þjóðaröryggiskerfi ef vélbúnaður og hugbúnaður þess er tryggður gegn skammtaþolinni dulkóðun og undirskrift.
HP hefur því svipt hulunni af nýrri prentaralínu sem eru sagðir geta varist skammtaárásum. Um er að ræða HP Color LaserJet Enterprise MFP 8801, Mono MFP 8601 og LaserJet Pro Mono SFP 8501.